Innlent

Eftirgrennslan eftir fólki á Látraströnd

Laust fyrir hádegi í dag fékk lögreglan á Akureyri ábendingu um að par frá Þýskalandi sem hefði líklega gengið af stað frá Grenivík norður Látraströnd sl. sunnudag væri ekki komið til baka til Grenivíkur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Akueyri.

Sést hafði til ferða fólksins á mánudaginn á leið sinni norður Látraströnd. Óljóst var hve mikinn búnað þau höfðu meðferðis og var því talið nauðsynlegt að kanna frekar með mannaferðir á Látraströndinni.

Ákveðið var að fljúga yfir svæðið sem talið var að fólkið væri á og kom í ljós að parið var statt í skýlinu í Látrum. Í kjölfarið fór björgunarbátur frá Björgunarsveitinni Ægi á Grenivík út í Látur og fékkst þá staðfest að þarna var fólkið sem svipast hafði verið eftir og var það í góðu yfirlæti og kvaðst ætla að vera eitthvað lengur á ströndinni og njóta veðurblíðunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×