Innlent

Verðbólgan 12,7 prósent í júní

MYND/Róbert

Verðbólga í júní mælist 12,7 prósent og hefur hækkað um 0,4 prósentustig á milli mánaða. Þetta kom í ljós í dag þegar Hagstofan birti nýjar tölur yfir vísitölu neysluverðs en hún hækkaði um 0,9 prósent milli maí og júní. Fara þarf um 18 ár aftur í tímann til þess að finna viðlíka verðbólgutölur.

Verð á bensíni og olíu hækkaði um 7,2 prósent og hafði það 0,35 prósenta vísitöluáhrif. Kostnaður vegna eigin húsnæðis hækkaði um 0,4 prósent og voru vísitöluáhrifin 0,06 prósent. Þar af voru áhrif af lækkun markaðsverðs -0,04 prósent en áhrif af hækkun raunvaxta voru 0,10 prósent. Greidd húsaleiga hækkaði um 4,3 prósent. Þá hækkaði kostnaður vegna viðhalds og viðgerða á húsnæði um 2,0 prósent.

Sem fyrr segir er verðbólgan 12,7 prósent en verðbólga án húsnæðis um 12,1 prósent. Þegar litið er til síðastliðinna þriggja mánaða reyntst verðbólgan 25,1 prósent á ársgrundvelli.

Verðbólgan hefur ekki verið svo mikil frá ágúst 1990 en þá reyndist hún 14 prósent. Verðbólgan nú er þó minni en greiningardeildir tveggja stóru bankanna spáðu í júní. Kaupþing spáði 13,1 prósents verðbólgu og Landsbankinn 13 prósenta en greiningardeild Glitnis spáði 12,4 prósenta verðbólgu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×