Erlent

Spenna magnast milli Indlands og Pakistans

MYND/AP

Spenna hefur magnast milli kjarnorkuveldanna Indlands og Pakistans eftir mannskæðu hryðjuverkaárásirnar í Múmbaí á Indlandi fyrir helgi. Indverjar segja ódæðismennirnir hafa fengið þjálfun í Pakistan áður en þeir hafi ráðist til atlögu.

Reutersfréttastofan hefur eftir ónafngreindum rannsóknarmönnum að við yfirheyrslur yfir eina eftirlifandi vígamanninum, Azam Amir Kasav, hafi komið fram gögn sem sýni fram á svo ekki verði um villst að hann og bandamenn hans hafi hlotið sérsveitarþjálfun í Pakistan. Lashkar e Taiba, herskár hópur frá Pakistan, hafi skipulagt þjálfunina og henni hafi fyrrverandi hermaður í pakistanska hernum stjórnað.

Lashkar e Taiba hefur barist gegn stjórn Indverja í Kasmír héraði og verði kennt um árás á þinghús Indverjar 2001 sem varð til þess að nærri kom til stríðsátaka milli landanna ári síðar. Hópurinn hefur verið talinn tengjast leyniþjónustu Pakistans nánum böndum þó að ráðamenn í Íslamabad segi að barist sé gegn þeim af fullri hörku.

Ráðamenn í Nýju Delí hafa ekki gengið svo langt að kenna pakistönskum stjórnvöldum um árásina´i Múmbaí en lýst yfir mikilli óánægju með að pakistanar hafi ekki reynt allt til að ganga milli bols og höfuðs á samtökunum.

Asif Ali Zardari, forseti Pakistans, hefur hvatt indversk stjórnvöld til að sýna stillingu svo komast megi hjá átökum. Stjórnarherrar í Íslamabad hafa varað við því að ef spennan magnist verði það til þess að pakistanskir hermenn verði fluttir frá landamærunum að Afganistan og til héraða við landamæri að Indlandi. Indverjar segja þetta gert til að kúga Bandaríkjamenn þannig að þeir hjálpi Pakistönum en ráðmenn í Washington leggi áherslu á baráttuna gegn Talíbönum í Afganistan og treysti á hjálp Pakistana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×