Innlent

Velti fjórhjóli

Myndin tengist ekki efni fréttarinnar.
Myndin tengist ekki efni fréttarinnar.

Ökumaður fjórhjóls velti hjólinu skammt fyrir ofan Heiðarbraut í Garði í gærkvöldi. Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum fann hann til eymsla í mjöðm og höfði og var hann fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar. Hann mun hafa verið vel búinn til fjórhjólaaksturs sem sennilega hefur komið í veg fyrir frekari meiðsli.

Þá höfðu lögreglumenn afskipti af þremur ökumönnum vegna umferðalagabrota í umdæmi lögreglu á Suðurnesjum í gærkvöldi og í nótt. Einn ók á 99 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 70 kílómetrar á klukkustund á Reykjanesbraut. Annar virti ekki stöðvunarskyldu og sá þriðji var grunaður um ölvun við akstur í Grindavík.

Tvívegis var tilkynnt um slagsmál á Hafnargötu í Keflavík en það leystist fljótlega upp. Æstur maður braut rúðu í húsi á Hafnargötu við Tjarnargötu auk þess sem hann braut spegil af bifreið. Við svo búið fór hann upp í leigubifreið og yfirgaf vettvang. Lögregla leitar vitna í tengslum við þau skemmdarverk. Tveir aðilar gistu fangageymslur vegna ölvunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×