Innlent

Hanna Birna: Ekki unað við stöðu flokksins í borginni

Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Ekki verður unað við stöðu Sjálfstæðisflokksins í borginni segir Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna. Hún segir andstæðinga meirihlutans hafa vegið ómaklega að borgarstjóra.

Hanna Birna Kristjánsdóttir ávarpaði flokksfélaga sína á opnum fundi í Valhöll í morgun. Góð mæting var á fundinn og ljóst að margir biðu spenntir eftir að heyra orð næsta borgarstjóra Reykjavíkur. Mikið hefur gengið á innan meirihlutans í Reykjavík undanfarnar vikur og hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins í borginni fallið niður í 27 prósent sem er það minnsta sem mælst hefur.

Hanna Birna sagði að undanfarnar vikur og mánuðir hafi verið erfiðir fyrir borgarstjórnarflokkinn, ekki síst fyrir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson sem hafi oft á tíðum sætt ósanngjarnri gagnrýni. Atburðarrás undanfarna daga hafi þó verið einkennileg og að öll lögmál stjórnmálanna hafi verið brotin á vettvangi borgarmálanna.

Hún telur að skortur á samráði og upplýsingum, of mikill hraði og lítill tími fyrir lýðræðið hafi ráðið miklu um hvernig fór.

Hanna Birna sagði jafnframt að ekki verði unað við slæma stöðu flokksins í könnunum og að ráðast verði til atlögu við þann vanda sem flokkurinn stendur frammi fyrir.

Hanna Birna sagði einnig að meirihlutasamstarfið stæði á traustum grunni en gagnrýndi minnihlutann fyrir ómakleg vinnubrögð og aðdróttanir í garð borgarstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×