Innlent

Hringferð um landið á tuðrum

Snemma í morgun lögðu tvær tuðrur, eða slöngubátar, upp frá Vestmannaeyjum í hringferð í kringum landið. Hér er á ferðinni átaksverkefni sem standa mun í þrjár vikur. Fyrsti áfangastaður er Reykjavík og er búist við þeim á milli klukkan tvö og þrjú í dag.

Tuðrurnar eru svokallaðar harðbotna tuðrur. Þær eru knúnar áfram af 250 og 150 hestafla utanborðsmótorum. Undirbúningur ferðarinnar hefur staðið yfir í níu mánuði enda er hér um átaksverkefni að ræða sem menn vilja sjá árangur af.
Bjartmar Sigurðsson leiðangursstjóri segir að ætlunin sé að styrkja Kraft, stuðningsfélag ungs fólks sem hefur greinst með krabbamein og aðstandenda þeirra. Ætlun hópsins er að koma víða við á ferðinni og kynna verkefnið.

Fyrir 36 árum var farið á tuðrum frá Vestmannaeyjum umhverfis landið. Tæknin í þá daga var ekki eins langt komin og hún er í dag og í þetta sinn verður farið um láð og lög samtímis. Leiðangursmennirnir eru níu talsins og það eru konurnar sem sjá um landvinnuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×