Innlent

Tuðran sprakk á leiðinni til Reykjavíkurhafnar

Hópurinn áður en lagt var úr höfn í Eyjum.
Hópurinn áður en lagt var úr höfn í Eyjum.

„Þetta gekk bara ágætlega fyrir utan smá óhapp sem við lentum í við Viðey þegar önnur tuðran sprakk, eða eitt hólfið í henni," segir Alma Eðvaldsdóttir, talsmaður framtaksins Kraftur í kringum Ísland. Þar er um að ræða níu manna hóp sem ætlar að sigla hringinn í kringum landið á tveimur tuðrum, eða slöngubátum.

Ferðin er farin til styrktar Krafts, stuðningsfélags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þess. Bátarnir lögðu upp frá Vestmannaeyjum í morgun og sóttist ferðin ágætlega þrátt fyrir nokkuð slæmt veður. Þegar stutt var eftir að Reykjavíkurhöfn kom hins vegar gat á annan bátinn en þrátt fyrir það tókst þeim að sigla honum til hafnar. „Það er ekki á hreinu hvað gerðist en líklega hafa þeir rekist á eitthvað brak," segir Alma í samtali við Vísi.

„Það verður gert við tuðruna í Reykjavík með hjálp góðra vina og síðan höldum við ótrauð áfram," segir hún. Bátarnir munu halda ferð sinni áfram klukkan kortér í tólf þann 17. júní næstkomandi en áætluð ferðalok verða í Vestmannaeyjum á 35 ára goslokaafmælinu þann 4. júlí.

Hægt er að kynna sér málið betur á heimasíðu framtaksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×