Innlent

Ingibjörg býður sig fram til formanns ASÍ

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ingibjörg R. Guðmundsdóttir vill verða formaður ASÍ.
Ingibjörg R. Guðmundsdóttir vill verða formaður ASÍ.

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ, mun bjóða sig fram til forseta sambandsins á ársfundi í október. Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, hefur þegar gefið kost á sér og því stefnir í formannskjör.  

Í yfirlýsingu frá Ingibjörgu segist hún byggja framboð sitt á rúmlega þriggja áratuga reynslu sinni í verkalýðsbaráttunni. „Ég byrjaði sem trúnaðarmaður á mínum vinnustað en þar til fyrir 6 árum starfaði ég í hlutastarfi hjá Flugleiðum. Ég sat lengi í stjórn VR meðal annars sem varaformaður. Síðustu 19 ár hef ég verið formaður Landssambands íslenzkra verzlunarmanna og samhliða varaforseti ASÍ í samtals 13 ár," segir Ingibjörg.

Hún segist hafa kynnst öllum hliðum verkalýðsbaráttunnar bæði í góðæri og þrengingum. Hún hafi leitt erfiða kjarasamninga allt frá þjóðarsátt 1989, stýrt landssambandinu í gegnum miklar breytingar, tekið þátt í erlendu samstarfi á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar og setið í fjölmörgum stjórnum og nefndum.

Ingibjörg segir að í starfi forseta myndi félagsleg reynsla sín nýtast Alþýðusambandinu mjög vel. Hún hafi unnið vel með fólki úr mismunandi starfshópum og með ólík viðhorf og út frá þeirri reynslu treysti hún sér til að tryggja góð samskipti og öflugt samstarf hinna ólíku félaga sem myndi Alþýðusambandið.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×