Innlent

Borgarstjóri væntir mikils af samstarfinu við Hönnu Birnu

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri væntir mikils og góðs af komandi samstarfi sínu við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur oddvita Sjálfstæðisflokksins í borginni.

"Ég hef þegar rætt við Hönnu Birnu og óskað henni til hamingju með að verða orðin oddviti Sjálfstæðismanna í borginni," segir Ólafur í samtali við Vísi. "Með þessum breytingum sem orðnar eru á ég von á að umræðan muni snúast á sveif með okkur og að verkum okkar og verkefnum verði gerð betri skil."

Ólafur segir ennfremur að hann vilji þakka Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni fyrir góða og farsæla samvinnu þeirra í borgarmálum undanfarin 18 ár. "Ég hef einnig haft samband við Vilhjálm og óskaði honum til hamingju með stóran áfanga í lífi sínu, það er brúðkaup hans í dag," segir Ólafur.

Hvað varðar lítið fylgi við hann og Sjálfstæðisflokkinn í skoðanakönnunum að undanförnu segir Ólafur að hann eigi nú von á breytingum þar á. "Ég hef aldrei unnið í könnum en aftur á móti nær alltaf í kosningum," segir hann.

Hvað varðar nánustu framtíð samstarfs hans og Sjálfstæðismanna í borgarmálum vísar Ólafur til verkefnalista þeirra í málefnasamningum. "Við munum halda áfram á þeirri braut sem verið hefur með að vinna að þessum verkefnum og vil ég þar sérstaklega geta um þá vinnu sem lögð hefur verið í miðborg Reykjavíkur að undanförnu," segir Ólafur F. Magnússon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×