Innlent

Stórátak í aðgengi að ferðamannastöðum á Reykjanesi

Frá Gunnuhver.
Frá Gunnuhver.

Ferðaþjónustusamtök á Reykjanesi ætla að gera stórátkak í að bæta aðgengi að helstu ferðamannastöðum á svæðinu og ætla að fá Hitaveitu Suðurnesja í lið með sér. Örar landslagsbreytingar hafa þó sett strik í reikninginn.

Undanfarin ár hefur verið unnið að því að koma upp gönguleiðum umhverfis Gunnuhver á Reykjanesi en um 140 þúsund ferðamenn sækja svæðið árlega. Þónokkuð rask hefur orðið á gönguleiðunum síðustu misseri þar sem gufuvirkni á svæðinu hefur stóraukist og fjöldi nýrra leirhvera myndast á svæðum sem áður voru skraufaþurr.

Einn þessara hvera er hinn nýji Gunnuhver sem uppgötvaðist á dögunum, en hann er einn stærsti leirhver á Íslandi. En Suðurnesjamenn ætla að nýta sér þessar hræringar til að laða að fleiri ferðamenn. Stendur til að hleypa af stokkunum verkefni sem ber yfirskriftina „Aðgengi fyrir alla" og verður sérstaklega tekið tillit til þeirra sem ferðast um í hjólastól.

Ætlunin er að fá Hitaveitu Suðurnesja að leggja veg norðan við Gunnuhver að lóni sem nefnist Gráa lónið og þaðan verður gerður útsýnisvegur sem liggur að Reykjanesvita. Fleiri gönguleiðir eru fyrirhugaðar í náinni framtíð en samningaviðræður við hitaveituna vegna verkefnisins standa enn yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×