Innlent

Vonast til að viðræður geti haldið áfram

Samninganefndir Læknafélags Íslands og ríkisins hittast á fundi hjá ríkissáttasemjara klukkan eitt til þess að reyna að ná samkomulagi um nýjan kjarasamning.

Félagsfundur Læknafélagsins hafnaði fyrr í vikunni tilboði ríkisins upp á rúmlega 20 þúsund króna flata hækkun launa og ákvað að hefja undirbúning að verkfallsaðgerðum í haust ef ekki semst fyrir þann tíma.

Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri Læknafélagsins og formaður samninganefndar, segist vonast til að fundurinn leiði til þess að menn geti haldið viðræðum áfram. „Við erum búin að skoða ýmislegt síðustu daga og taka upp aftur úr upphaflegri kröfugerð. Það snýr meðal annars að vinnutíma, frítökurétti og hvíldartíma. Báðir aðilar voru sammála um að fara í gegnum þessa þætti," segir Gunnar.

Hann bendir á að í ljósi efnahagsástandsins hafi verið rætt um skammtímasamning og því hafi í fyrstu aðeins verið horft til hækkunar launa en ákveðið að leggja áðurgreinda þætti til hliðar. „Svo komum við á ákveðna endastöð með launin og því var ákveðið að taka þessa þætti upp aftur þannig að báðir aðilar geti unað við það og skrifað undir samninga," segir Gunnar. Hann bætir við að hins vegar sé of snemmt að segja til um hvernig muni ganga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×