Innlent

Jón Ólafsson segist saklaus og fer fram á frávísun

Fyrir stundu voru þingfestar ákærur gegn Jóni Ólafssyni athafnamanni í Héraðsdómi Reykjavíkur en hann er grunaður um að hafa skotið undan skatti 361 milljón króna. Auk Jóns eru þeir Hreggviður Jónsson, Ragnar Birgisson og Símon Ásgeir Gunnarsson ákærðir í málinu. Allir verjendurnir fóru fram á frávísun í málinu nema Ragnar Hall, verjandi Ragnars Birgissonar.

Mestur hluti þinghaldsins í dag fór í að deila um hvort skipa mætti Sigurð G Guðjónsson verjanda Jóns en hann og Ragnar Aðalsteinsson fara fram á að verja hann saman. Saksóknari gerði athugasemd við aðkomu Sigurðar þar sem Sigurður kann að vera kallaður til vitnis í málinu. Dómarinn tók sér frest til þess að íhugunar um þetta efni.

Jón Ólafsson sagðist í samtali við blaðamann Vísi niður í Héraðsdómi fagna tækifærinu sem hann fengi nú til þess að hreinsa mannorð sitt. Hann sagði auk þess að um skýrt mannréttindabrot væri að ræða hversu langan tíma rannsóknin hefur tekið.

„Það hefur verið gríðarlega óþægilegt og oft þungbært að sitja undir þessum ásökunum í þetta langan tíma," sagði Jón Ólafsson. Hann sagðist einnig telja sig saklausan í þessu máli.

Hin meintu brot Jóns áttu sér stað á árunum 1999-2002. Hann er einnig ákærður fyrir að hafa ekki greitt eignaskatt af fasteignum í Lundúnum og Cannes.

Fram kemur í ákærunni að um sé að ræða undanskot á tekjuskatti upp á rúmar 155 milljónir, fjármagnstekjuskatt upp á tæpar 203 milljónir og eignarskatts upp á rúmar 3 milljónir króna.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×