Innlent

Þriggja ára stúlka kafnaði næstum

Minnstu munaði að þriggja ára stúlka kafnaði í handklæðahring heima hjá sér á Selfossi fyrr á þessu ári. Herdís Storgaard forstöðumaður Forvarnarhúss ráðleggur foreldrum smábarna að taka niður handklæðahringi. Hún segir margar hengingargildrur á heimilum.

Það var fyrr á þessu ári að mæðgur á Selfossi voru að bardúsa heima um kvöldmatarleytið. Mamman var að stússast í eldhúsinu og þriggja ára dóttir hennar að leika sér. Mamman hlustar reglulega eftir litlu stelpunni og heyrir að hún er komin inn á baðherbergi. Hún heldur áfram með matseldina þar til hún heyrir skyndilega óhugnanlegt hljóð innan úr baðherberginu, ámátlegt ýlfur.

Skelfingu lostin losar mamman barnið úr hringnum. Fréttastofa Stöðvar 2 ræddi við föður litlu stelpunnar í dag sem segir að þarna hafi líklega fáeinar sekúndur skilið á milli lífs og dauða. Svo virðist sem barnið hafi klifrað upp á þrep - sem eru á baðherbergjum margra barnafjölskyldna - troðið hausnum í gegnum hringinn og sparkað síðan þrepinu frá sér með þessum afleiðingum.

Hann segir atvikið hafa orðið til þess að þeir foreldrarnir hafi farið að skoða heimilið með öðrum augum. Því hverjum hefði dottið í hug að sárasaklaus handklæðahringur gæti orðið hugsanleg dauðagildra.

Herdís Storgaard, forstöðumaður Forvarnahúss, segir hengingargildrur á heimilum raunar margar. Hún bendir á snúrur úr felligardínum en nokkur dæmi eru um að minnstu hafi munað að lítil börn hafi hengt sig í slíkum búnaði.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×