Innlent

Safna klinki í styrktarsjóð

Matthías Imsland og Birna Guðmundsdóttir markaðsstjóri Iceland Express stilltu sér upp fyrir myndatöku ásamt starfsmönnum Vinar og Kristjáni Sturlusyni, framkvæmdastjóra Rauða krossins.
Matthías Imsland og Birna Guðmundsdóttir markaðsstjóri Iceland Express stilltu sér upp fyrir myndatöku ásamt starfsmönnum Vinar og Kristjáni Sturlusyni, framkvæmdastjóra Rauða krossins.
Rauði krossinn og Iceland Express hafa stofnað sameiginlegan styrktarsjóð fyrir fólk með geðraskanir. Fyrsti hópurinn fer á fótboltaleik í Bretlandi í janúar.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja skipulagðar ferðir á vegum ferðafélaga fyrir fólk með geðraskanir. Farþegum Iceland Express gefst kostur á styrkja sjóðinn með því að setja afgangs smámynt í þartilgerð umslög sem liggja munu í hólfi á sætisbakinu. Erlenda myntin er flokkuð með milligöngu Rauða krossins í Bretlandi. Slíkar safnanir hafa gefist vel hjá samtökunum víða um heim, enda lúra margir á erlendri myndt í skúffum og krukkum heima við.

Ferðafélög fólks með geðraskanir eru starfrækt í athvörfum sem Rauði krossinn rekur eða á aðild að víða um land og eru þau öllum opin. Meginmarkmiðið með slíkum ferðalögum er að víkka út reynsluheim einstaklinga sem þjást af andlegum kvillum og getur slík upplifun aukið andlegan styrk og bætt lífsgæði viðkomandi verulega. Fulltrúar Rauða krossins og Iceland Express undirrituðu samkomulagið nú um hátíðarnar í Vin, einu af elstu athvörfum Rauða krossins, en það hefur verið starfrækt á Hverfisgötu í Reykjavík í ein 15 ár. Fyrsta ferðin sem styrkt er úr ferðasjóðnum verður farin í lok janúarmánaðar. Þá er ætlunin að fara til Bretlands til að fylgjast með fótboltaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×