Innlent

Geirsgata og Mýrargata sameinaðar í einn stokk

Umhverfis og samgönguráð Reykjavíkurborgar samþykkti þetta fyrir skömmu.

Stokkurinn færi þá niður á Sæbaut við Sjávarútvegshúsið, tengdist Mýrargötu stokknum við Tollstjórahúsið og kæmi upp að Ánanaustum. Þetta yrði fjögurra akreina stokkur, aðskilinn með tvær akreinar í hvora átt.

Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfis og samgönguráðs segir markmiðið með þessu að draga verulega úr umferð ofanjarðar og skapa framtíðarsamgöngur fyrir íbúa Örfiriseyjar og vesturbæjar.

Umferðin fer þó ekki öll í stokk heldur verður hún einnig ofanjarðar með þrjátíu kílómetra hámarkshraða. Þá verður einnig gert ráð fyrir sporvögnum, hjólreiðaakreinum og göngustígum.

Vegfarendur geta því farið að höfninni, og íbúðarhúsum í grennd við Mýrargötu. Framkvæmdir við Geirsgötustokk eru nú þegar hafnar og fer hann í gegnum bílastæðakjalllara við tónlistarhúsið sem á að rýma átján hundruð bíla. Áætlað er að Tónlistar og ráðstefnuhús verði tilbúið í lok 2009. Reiknað er með að framkvæmdum við hluta stokksins á Geirsgötu haldist í hendur við uppbyggingu á mýrargötu skipulaginu sem enn hefur ekki verið útfært að fullu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×