Innlent

Árni neitar að tjá sig um ljósmæður

Fjármálaráðherra vill ekki tjá sig um kjaradeilu ljósmæðra, né álit utanríkisráðherra um að deilan geti stigmagnast vegna ákvörðunar hans að stefna ljósmæðrum fyrir ólögmæta uppsögn.

Öðru tveggja daga verkfalli ljósmæðra lauk á miðnætti í gær og á þriðjudag hefst þriggja daga verkfall. Samningafundur í gær var árangurslaus og nýr fundur boðaður á mánudag.

Formaður félags ljósmæðra segir ákvörðun fjármálaráðherra að stefna þeim vegna meintra ólögmætra uppsagna hafa hleypt kergju í þær og gert málið erfiðara.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að það hafi ekki verið klókt útspil hjá Árna að stefna ljósmæðrum og það gæti orðið til þess að deilan stigmagnaðist.

Ekki náðist í fjármálaráðherra í dag, en Böðvar Jónsson aðstoðarmaður hans sagði að ráðherra ætlaði ekki að tjá sig um deiluna og ekki heldur um ummæli utanríkisráðherra.

Verkfall ljósmæðra var rætt á Alþingi í gær. Fjármálaráðherra var ekki þar, heldur skráður með fjarvist og var í Hrunaréttum.

Fréttablaðið náði tali af honum þar og spurði hann út í stefnuna og gagnrýni utanríkisráðherra, en fjármálaráðherra sagði það ekki fara saman að vera í réttum og vera í fréttum. Og bætti við, „Þú náðir bara ekki í mig."


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×