Innlent

Gagnrýndu skipulag þingfundar í dag

Heimir Már Pétursson skrifar

Stjórnarandstaðan gagnrýndi á Alþingi í morgun að haldinn væri langur fundur á Alþingi um samgöngu- og menntamál á sama tíma og samgönguþing og aðalfundur Ríkisútvarpsins færu fram.

Samgönguráðherra mælir fyrir sex málum á Alþingi í dag, þeirra á meðal þingsályktunartillögu um viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007 - 2010 um flýtingu alls kyns vegaframkvæmda í tengslum við mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna minni þorskafla.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, minnti á að á sama tíma og samgönguráðherra mælti fyrir öllum þessum málum, sem þingmenn vildu að sjálfsögðu ræða, væri haldið samgönguþing.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru ekki bara óánægðir með að samgönguþing og málaskrá Alþingis sköruðust með þessum hætti heldur fór forseti þingsins fram á lengri fundartíma í dag en dagskrá hafði gert ráð fyrir. Í dag er einnig meiningin að menntamálaráðherra mæli fyrir þremur málum á Alþingi, sama dag og aðalfundur Ríkisútvarpsins ohf. er haldinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×