„Með Sigurbirni Einarssyni er genginn öflugur málsvari kristni og mannúðar," segir Björn Bjarnason ráðherra kirkjumála.
„Ég heyrði hann síðast flytja snjalla prédikun fyrir fáeinum vikum, hinn 27. júlí í Reykholtskirkju. Þar fullvissaði hann okkur enn og aftur á sinn einstæða hátt um návist Jesú Krists, hann væri í gær og í dag hinn sami og um aldir. Kristin trú væri auk þess helgasta arfleifð og dýrmætasta eign þjóðarinnar. Hún hefði styrkt ættjarðarást og vakningu um íslenska tungu undir forystu Fjölnismanna. Tungan væri fjöreggið, sem sjálfstætt Ísland ætti líf sitt undir," segir Björn.
Björn segir að til hinstu stundar hafi Sigurbjörn brýnt Íslendinga til að hafa kristin gildi í heiðri, sögu okkar, tungu og sjálfstæði. "Hann var einstakur maður í öllu tilliti, blessuð sé minning hans," segir Björn.
„Við andlát hans er Íslendingum efst í huga þakklæti fyrir það sem hann veitti þjóð sinni. Hans er minnst sem ástsælasta andlega leiðtoga þjóðarinnar á síðari tímum," segir Geir.