Innlent

Reyndu að frelsa félagann úr haldi lögreglu

Þónokkuð var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Til átaka kom í Breiðholti þegar lögreglumenn hugðust handtaka mann. Félagar mannsins ákváðu að reyna að koma honum til bjargar og frelsa hann úr haldi lögreglu.

Að sögn vaktstjóra varð ansi mikill atgangur vegna þessa og þurftu lögreglumenn að nota varnarúða á óróaseggina. Enginn slasaðist þó í átökunum en einn gistir fangageymslur vegna þeirra. Þá var bifreið ekið á ljósastaur við Gullinbrú um klukkan fjögur og voru þrír fluttir á slysadeild. Eldur kom upp í potti í Giljalandi með þeim afleiðingum að reykræsta þurfti íbúðina og flytja tvo íbúa hússins á slysadeild.

Og þá var ekið á gangandi vegfaranda á gangbraut á Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði og var hann fluttur á slysadeild, meiddur á fæti. Í Hafnarfirði kom einnig upp eldur í íbúðarhúsi við Garðaveg. Rýma þurfti húsið en tveir íbúar voru á jarðhæð þess en enginn á efri hæðinni. Engum varð þó meint af.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×