Innlent

Dómara urðu á réttarfarsleg mistök

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Líndal er prófessor emeritus.
Sigurður Líndal er prófessor emeritus.

„Það kemur mér mjög á óvart að dómari hafi ekki leyft lögmönnum að færa rök fyrir máli sínu áður en úrskurður var kveðinn upp," segir Sigurður Líndal, professor emeritus í lögfræði.

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í gær að Sigurður G. Guðjónsson yrði ekki skipaður verjandi Jóns Ólafssonar athafnamanns í dómsmáli sem höfðað hefur verið gegn honum. „Ég hélt að það væri meginreglan að menn fengu að tjá sig og útskýra sín sjónarmið stuttlega áður en að úrskurður er kveðinn upp," segir Sigurður.

Sigurður tekur þannig undir þau orð Ragnars Aðalsteinssonar. Hann sagði í gær að dómaranum hefði orðið á mikil réttarfarsleg mistök með því að lesa upp úrskurðinn án þess að lögmenn fengu að tjá sig um málið.

Sigurður segir hins vegar að lagabókstafurinn sé mjög skýr um að ekki skuli skipa menn verjendur sem kunni að verða kallaðir til sem vitni. Það sé hins vegar matsatriði hversu miklar líkur séu á því að lögmaðurinn verði kallaður til sem vitni. Túlkun á mannréttindasáttmálanum og þeim íslensku lögum sem þarna eigi við sé jafnframt matsatriði.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×