Innlent

Hópslysaæfing á Landspítala tókst vel

Landspítali var settur á virkjunarstig laugardagsmorguninn 20. september 2008 vegna rútuslyss sem gert var ráð fyrir að orðið hefði í Ártúnsbrekku í Reykjavík og var unnið samkvæmt nýrri viðbragðsáætlun spítalans. Æfingin er sögð hafa heppnast vel en í viðbragðsáætluninni er gert ráð fyrir þremur stigum, viðbúnaðarstigi, virkjunarstigi og neyðarstigi.

Á viðbúnaðarstigi eru fáir kallaðir til en treyst á það starfsfólk og þekkingu sem er til staðar á vaktinni hverju sinni. Á virkjunarstigi er útkallið stærra en samt um mikinn sveigjanleika að ræða. Á neyðarstigi er umfangið svo mikið að nauðsynlegt er að virkja Landspítala að fullu.

Á æfingunni var í fyrsta skipti notað nýtt fjarskiptaskipulag fyrir Landspítala.

„Æfingin miðaðist við 52 slasaða og voru þeir fluttir á bráðamóttökur spítalans í Fossvogi og við Hringbraut. Á spítalann voru 20 mikið slasaðir, 20 nokkuð slasaðir og 12 minna slasaðir. Þegar æfingunni lauk kl.12:20 höfðu 5 manns verið fluttir í aðgerð. Látnir voru fjórir. Sjúkrahús á suðvesturhorni landsins voru í viðbragðsstöðu en ekki kom til þess að það þyrfti að flytja sjúklinga þangað," segir í tilkynningu frá spítalanum.

Landspítali stóð að æfingunni en margir fleiri tóku þátt í henni, svo sem Lögreglan í Reykjavík, embætti Ríkislögreglustjóra, Slökkvilið höfuðborgarsvæðins, Rauði kross Íslands, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins og Samhæfingarstöðin við Skógarhlíð.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að æfingin hafi tekist mjög vel og að næstu dagar verði notaðir í að safna saman upplýsingum um hana, hvað tókst vel og hvað miður til þess að læra af reynslunni og bæta úr þar sem kann að vera þörf á því, meðal annars í sjálfri viðbragðsáætlun spítalans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×