Erlent

Kærir bandarísk verktakafyrirtæki fyrir pyntingar

Íraskur maður hefur kært tvö bandarísk verktakafyrirtæki í Írak fyrir að hafa ítrekað pyndað sig. Maðurinn var fangi í hinu alræmda Abu Ghraib fangelsi vestur af Bagdad.

Emad al-Janabi var fangi í Abu Ghraib í rúma tíu mánuði frá september 2003. Hann segist hafa sætt ýmis konar pyndingum meðan hann mátti dúsa þar.

Hann hefur nú kært starfsmenn öryggisþjónustufyrirtækjanna CACI og L-3 Communications - áður Titan Corporation - en starfsmenn þeirra voru að störfum í fangelsinu þegar al-Janabi var þar. Hann segir að þeir hafi stýrt yfirheyrslum yfir honum þar sem hann hafi mátt þola illa meðferð.

Dómstóll í Los Angeles tekur mál al-Janabis fyrir. Hann segist vona að það varpi frekara ljósi á atburði innan veggja fangelsisins. Fangelsið var alræmt snemma árs 2004 þegar byrjað var að greina frá illri meðferð Bandaríkjamanna á föngum þar.

Al-Janabi segir að sér hafi aldrei verið greint frá því af hverju hann var handtekinn og fangelsaður. Hann hafi bara verið sagður hryðjuverkamaður og að hann ætlaði að gera árás á bandaríska hermenn í Írak. Al-Janabi segir það hafa verið fjarri sanni.

Fram kemur í ákæru hans að verktakar í fangelsinu hafi eyðilagt gögn í máli hans og annarra fanga og falið þá sem voru í verstu ástandi þegar fulltrúar Alþjóða Rauða krossins hafi komið að skoða fangelsið.

Al-Janabi var látinn laus í júlí 2004. Honum var aldrei birt ákæra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×