Innlent

Erfitt að koma í veg fyrir skemmdarverk ef brotaviljinn er einbeittur

Erfitt er að koma í veg fyrir skemmdarverk á flugvélum sé brotaviljinn einbeittur, segir sviðsstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Spellvirkjar komust inn á Reykjavíkurflugvöll um helgina og unnu skemmdaverk á DC-3 vél Þristavinafélagsins.

Vélin er í geymslu á Reykjavíkurflugvelli en málningu var úðað á skrokk og stél vélarinnar á aðfaranótt sunnudags. Það er slökkvilið Reykjavíkur sem hefur eftirlit með flugvellinum.

Birgir Finnsson, sviðsstjóri útkallssviðs hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir að flugvélin hafi verið í geymslu en sé ekki á upplýstu flughlaði þannig að ef ásetningur sé mikill sé allt hægt. „En við erum með eftirlit á flugvellinum og flughlöðum og svo eru auðvitað flugfélögin með sitt eftirlit en þessi flugvél var fyrir utan það svæði," segir Birgir.

Eftirlitið er því meira á upplýstum svæðum flugvallarins. „Við hjá slökkviliðinu sjáum um ákveðna þætti en ég get svo ekki upplýst í hverju það felst þar sem það er ákveðið leyndarmál hvernig eftirlitinu er háttað á flugvöllum," segir Birgir enn fremur.

Aðspurður segir Birgir að skoða þurfi hvað fór úrskeiðis „en menn hafa alltaf verið meðvitaðir um það að ef það er einbeittur brotavilji og menn ætla sé hluti þá er auðvitað erfitt að koma í veg fyrir það."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×