Innlent

Hitamet kann að falla í dag

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Gera má ráð fyrir að dagurinn í dag verði hlýjasti dagur ársins víða á landinu, að sögn Sigurðar Þ. Ragnarssonar, veðurfræðings hjá 365 miðlum. Hann gerir ráð fyrir að hitinn fari upp í 28 - 29 stig til landsins suðvestan til. Hitinn var mestur 27,1 gráður í gær á Þingvöllum sem er mun hærra en þegar hann var mestur í fyrra. Síðasta sumar fór hitinn hæst í 24,6 gráður. Það var á Hjarðarlandi í Biskupstungum, en þar var hitinn 26 stig í gær. Sumarið 2008 er því orðið heitara en sumarið 2007.

Hlýrra en í fyrra

Sigurður segir að svo gæti farið að hitamet kunni að falla á Íslandi í dag. Hitinn hafi mest farið upp í 30,5 gráður á Íslandi. Það hafi verið í júní 1939. „Það er ekki útilokað að það met verði slegið sem og metið fyrir Reykjavík sem er 24,8 gráður" segir Sigurður. Hann segir að það sé frá hitabylgjunni árið 2004. „Við þessar aðstæður má velta fyrir sér hvort atvinnurekendur ættu ekki að taka upp sólarfrí og að á sjónvarpsstöðvunum verði bara stillimyndir," segir Sigurður og brosir í kampinn.

Spáir vel fyrir verslunarmannahelgi

Sigurður segir að veðurhorfur fyrir verslunarmannahelgi séu mjög góðar víðast hvar á landinu, einkum frá laugardegi til mánudags. Búist sé við hægum vindi og björtu veðri þó að skýjað verði á köflum, einkum austan til. Á föstudagsmorgun sé von á örlítilli rigningu sunnan til en það stytti upp þegar líði á daginn. „Það er erfitt að mæla með einhverjum einum stað á landinu fremur en öðrum þessa helgina, segir Sigurður og bætir við að útlitið sé gott hvert sem litið er. Hann segir að þetta verði með betri verslunarmannahelgarveðrum. Útlit sé gott í Eyjum, á Neistaflugi á Neskaupsstað og blíðskapaveður verði á Síldarævintýrinu á Siglufirði og á Halló Akureyri.

Ísland mögulega orðið sólarland

Sigurður segir að það sem valdi þessu góða veðri séu hlýir háloftastraumar sem berist frá Spáni og nái niður við Ísland. „Ég velti fyrir mér hvort hnattræn hlýnun sé að verða til þess að hægt sé að markaðssetja Íslands sem sólarland fyrir ferðamenn," segir Sigurður og hlær. „Í það minnsta keppir Ísland nú við lönd eins og Spán, Portúgal og Ítalíu, hvað hitastig og sól varðar" segir hann.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×