Innlent

Icelandair meðal óstundvísustu flugfélaga Evrópu

Icelandair er í fjórða sæti yfir þau evrópsku flugfélög þar sem seinkun á flugi til áfangastaða í Evrópu var hvað mest á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Þetta kemur fram í samantekt Sambands evrópskra flugfélaga, Association of Europena Airlines.

Samkvæmt tölum sambandsins eru rúmlega 73 prósent flugferða Icelandair á áætlun en þar er miðað við 15 mínútna seinkun eða minna. Efst á listanum yfir óstundvís flugfélög er breska flugfélagið British Airways en tæplega 60 prósent flugferða félagsins voru á áætlun á fyrsta ársfjórðungi.

Þar eftir kom Air Malta með 67 prósent flugferða á áætlun og Finnair er í þriðja sæti með 71 prósent. Skandinavíska flugfélagið SAS skipar áttunda sætið en rúmlega þrjár af hverjum fjórum flugferðum þess eru á áætlun.

Í hópi þeirra stundvísustu má finna mörg austur- og suðurevrópsk flugfélög. Efst á þeim lista er Malev Hungarian Airlines með 86 prósent flugferða á áætlun og þar á eftir koma Czech Airlines, Air France, Alitalia með tæp 84 prósent.

Samband evrópskra flugfélaga hefur enn fremur tekið saman lista yfir þá flugvelli í Evrópu þar sem seinkunin er hvað mest. Á toppnum trónir Heathrow-flugvöllur í Lundúnum en tafir urðu á rúmlega 44 prósent flugferða frá flugvellinum til annarra áfangastaða í Evrópu. Þar á eftir kemur Dyflinnarflugvöllur með seinkun í þriðjungi ferða og þar á eftir koma flugvellirnir í Helsinki, Genf og Frankfurt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×