Innlent

Anna kjörin formaður Rauða kross Íslands

Anna Stefánsdóttir var í dag kjörin formaður Rauða kross Íslands á aðalfundi félagsins. Hún tekur við af Ómari H. Kristmundssyni sem gegnt hefur formennsku síðastliðin tvö ár. Anna var kjörin með lófataki á aðalfundinum sem haldinn var í Kópavogi.

Anna hefur setið í stjórn Rauða krossins frá 2002, og verið varaformaður frá 2006. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt með meistaranám í hjúkrunarstjórnun. Hún var ráðin hjúkrunarforstjóri Landspítalans árið 1996, og hjúkrunarforstjóri sameinaðs Landspítala-háskólasjúkrahúss árið 2000. Hún gegnir um þessar mundir einnig forstjórastarfi þar tímabundið. Anna hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir fag- og stéttarfélög henni tengd.

"Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni. Rauði krossinn kemur að svo mörgum málefnum sem ég hef áhuga á að fylgja eftir í þessu nýja hlutverki - og þá sérstaklega starfi okkar með innflytjendum og ungmennum sem hafa tímabundið misst fótanna í lífinu," segir Anna. "Ég tel mjög mikilvægt að fá til liðs við okkur ungt fólk til að vinna að þessum verkefnum sem eru höfð að leiðarljósi í stefnu Rauða krossins til ársins 2010."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×