Innlent

Fótboltakrakkar fastir í Leifsstöð í tíu tíma

Elvar Geir Magnússon skrifar

Sextíu og fimm manna hópur frá íþróttafélaginu Leikni hefur verið fastur í Leifsstöð í rúmar tíu klukkustundir. Hópurinn er á leið á Gothia Cup fótboltamótið í Svíþjóð en stelpur og strákar á aldrinum 12 - 16 ára munu keppa á því móti fyrir hönd Leiknis.

„Þetta er bara algjört martröð. Við hittumst 3:45 í nótt og héldum síðan til Keflavíkur þar sem áætlað var flug klukkan 7 hjá Iceland Express. Þegar við komum þangað var okkur tjáð það að fluginu væri frestað til 15:30. Það er starfsfólk hérna sem sagði okkur að það hefði komið í ljós í gær en við vorum ekkert látin vita," sagði Þórður Einarsson, þjálfari í hópnum.

Hópurinn fór síðan upp í vélina 15:30 en þegar þangað var komið var tilkynnt að bilun væri í vélinni sem tæki um klukkutíma að gera við. Þegar Vísir heyrði í Þórði rétt fyrir klukkan 17 var enn allavega hálftími þar til vélin gæti tekið á loft.

„Þeir sem sváfu mest í nótt tóku fjóra tíma í svefn svo ástandið hefur verið erfitt. Svo vildi starfsfólk hérna í verslunum flugstöðvarinnar ekkert með okkur hafa og við máttum hvergi vera. Það sem ég er mest ósáttur við er að flugfélagið hefur nánast ekkert gert fyrir okkur og svo höfum við ekkert heyrt í Úrvali -Útsýn sem við keyptum þessa ferð af," sagði Þórður mjög ósáttur.

Hópurinn ætlaði að fljúga til Danmerkur og fara í vatnsrennibrautagarð áður en keyrt yrði til Svíþjóðar. „Við vorum búin að skipuleggja ferðina svona en nú er það allt ónýtt. Við erum að tala um 15 þúsund króna tap á hvern einstakling," sagði Þórður.

 







Fleiri fréttir

Sjá meira


×