Innlent

Nýr framhaldsskóli í Kópavogi

Nýr framhaldsskóli fyrir afreksíþróttamenn er í undirbúningi í Kórahverfi í Kópavogi. Samhliða því verður reist ein glæsilegasta íþróttaaðstaða landsins.

Það er Knattspyrnuakademía Íslands ásamt Kópavogsbæ sem standa fyrir þessum áformum.



Nú þegar er búið að byggja knattspyrnuhús sem er komið í fullan rekstur og framkvæmdir eru hafnar við byggingu íþróttahúss, sundlaugar og líkamsræktarstöðvar. Lýkur þeim framkvæmdum í lok árs. Í sumar verður svo farið í gerð þriggja nýrra knattspyrnuvalla.



Nú hefur þessi hópur áform um að koma á fót framhaldsskóla með afreksbrautum fyrir ungt íþróttafólk með stúdentspróf að markmiði. Ráðgert er að skólinn taki 700 til þúsund nemendur og eru jafnvel uppi hugmyndir um byggingu heimavistar þannig að skólinn geti tekið við 10 til 15 erlendum nemendum á ári.

Knattspyrnuakademían og Kópavogsbær hafa undanfarin misseri átt í viðræðum við menntamálaráðuneytið og stendur til að leggja inn drög að námsskrá á næstunni. Logi Ólafsson, talsmaður Knattspyrnuakademíunnar, segir ráðherra hafa tekið vel í hugmyndina þótt enn sé mikið starf óunnið. Vonast hann þó til að hafist verði handa við byggingu skólans sem allra fyrst. Hann segir jafnframt að nauðsynlegt sé að efla hlut afreksíþróttafólks í menntakerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×