Innlent

Boða aðgerðir við þinglok

Haukur Birgisson, bílstjórinn sem lagði bíl sínum fyrir hlið olíubirgðastöðvarinnar í Örfirisey, segist hafa látið af mótælunum í bili. Hann boðar aðgerðir á Austurvelli við þinglok.

„Við vorum bara að minna á okkur," segir Haukur í samtali við Vísi. Hann sagði að mótmælin í kvöld hafi ekki haft mikil áhrif þar sem umferð um stöðina væri með minna móti á þessum tíma. „Það má segja að við höfum verið að kanna aðstæður þarna." Haukur segist hafa verið virkur þáttakandi í mótmælum bílstjóranna til þessa og að sífellt erfiðara verði fyrir þá að fá fólk með sér þar sem menn hræðist aðgerðir lögreglu. „Mér finnst leiðinlegast hvað allir eru orðnir hræddir við lögregluna og vinnubrögð þeirra og manni líður bara eins og maður sé staddur í Kína."

Haukur segir að bílstjórarnir ætli að safnast saman fyrir framan Alþingishúsið 29. maí næstkomandi þegar þingmenn ljúka störfum sínum fyrir sumarið. „Við ætlum að leggja krans við Alþingishúsið og vera með einskonar líkfylgd fyrir þingið. Þetta er auðvitað sorglegt hvernig þetta fólk vinnur vinnuna sína. Ef ég stæði mig svona í minni vinnu væri fyrir löngu búið að reka mig," segir Haukur, óhress með lítil viðbrögð löggjafans í olíumálunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×