Innlent

SUS ályktar gegn Íbúðalánasjóði

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður

Samband ungra sjálfstæðismanna tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í bráðabirgðaniðurstöðu eftirlitsstofnunar ESA um starfsemi ríkisrekins Íbúðalánasjóðs. Þar kemur fram að tryggja verði að ríkistryggð lánastarfsemi trufli ekki eðilega samkeppni. Í ályktun sem stjórn SUS hefur samþykkt segir að stjórnvöld ættu að nýta þetta tækifæri til þess að stíga það löngu tímabæra skref að draga ríkisfyrirtæki út úr almennri lánastarfsemi.

„Nú þegar skóinn kreppir á mörgum heimilum vegna of mikillar skuldsetningar er vert að minnast þáttar Íbúðalánasjóðs í þeirri þenslu sem verið hefur á Íslandi undanfarin ár. Á meðan Seðlabankinn hefur hækkað vexti stöðugt frá vori 2004 hefur Íbúðalánasjóður farið í þveröfuga átt. Þess vegna voru það reginmistök þegar Íbúðalánasjóður fékk heimild til að hækka lán í 90% af kaupverði.

Ennfremur var hin harða varnarbarátta sjóðsins, þegar viðskiptabankarnir hófu að bjóða upp á almenn húsnæðislán frá hausti 2004, til þess að kynda undir þenslu á fasteignamarkaði. Sá vandi sem mörg heimili horfa fram á í dag má meðal annars rekja til aukinnar skuldsetningar í kjölfar rýmkaðs veðrýmis á fasteignum. Margir reistu sér hurðarás um öxl í því ástandi sem Íbúðalánasjóður, ásamt öðrum, stuðlaði mjög að," segir meðal annars í ályktun SUS.

Þá segir SUS að samkeppni milli einkafyrirtækja og ríkisfyrirtækja leiði ætíð af sér sóun sem á endanum bitni á neytendum og almenningi. Varnarbarátta Íbúðalánasjóðs sé engin undantekning þar á, en sérstaklega sé ámælisvert hvernig sú stofnun hafi varið almannafé til þess að reka áróður fyrir eigin tilvist og það háttalag verið látið viðgangast.

Nú á dögum sé ekki þörf á því að ríkið láni til fasteignakaupa í samkeppni við einkafyrirtæki og beri stjórnvöldum að bregðast við áliti ESA með því að leggja niður Íbúðalánasjóð í núverandi mynd. Það yrði að auki til þess fallið að skapa heilbrigðari aðstæður á fjármálamarkaði hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×