Innlent

Erfitt að finna lóðir fyrir útigangsfólk

Erfiðlega gengur að finna lóðir fyrir smáhýsi fyrir útigangsfólk sem voru sérhönnuð fyrir íslenskar aðstæður. Smáhýsin eru þrefalt ódýrari en hefðbundnar íbúðir.

Fyrirtækið Félagsbústaðir hannaði þessi hús og hefur þegar látið smíða eitt. Ætlunin var að smíða fjögur hús í samvinnu við Velferðarráð Reykjavíkurborgar. Sigurður Kr. Friðriksson, framkvæmdfastjóri Félagsbústaða sagði í samtali við fréttastofuna að að hugmyndin sé fengin frá Danmörku.

Þar eru slík hús sett tímabundið á ónotaðar lóðir og færð til þegar lóðirnar eru teknar undir annað. Húsin eru 25 fermetrar og má kannski líkja við stúdíóíbúð. Í stærsta hluta húsins er stofa, tveggja manna rúm og eldunaraðstaða. Húsin eru einkum ætluð fyrir pör. Svo er lítið baðherbergi.

Húsin eru byggð til þess að þola mikið álag bæði að utan og innan. Ár er liðið síðan þessi leið var ákveðin hér á landi en enn hefur ekkert hús verið tekið í notkun.

Sigurður segir að það sé vegna þess að erfiðlega gangi að finna lóðir. Þessi hús sé ekki hægt að setja niður hvar sem er. Útigangsfólk haldi sig í miðborginni og því sé verið að tala um svæði frá höfninni og upp að Öskjuhlíð.

Þar þar séu ýmsar hindranir svosem nálægð við skóla eða önnur íbúðarhús.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×