Erlent

Fyrstu björgunarsveitirnar hafa nú náð til Wenchuan

Fyrstu björgunarsveitirnar hafa nú náð til Wenchuan í Kína en borgin og héraðið liggja nálægt upptökum jarðskjálftans sem reið yfir svæðið í gærdag.

För björgunarsveitanna gekk erfiðlega í morgun þar sem um 30 eftirskjálfar hafa orðið, allir af stærðargráðunni 4 á richter eða meira. Enn hafa engar upplýsingar borist um mannfall í Wenchuan en þar búa rúmlega 110.000 manns.

Ljóst er að mannfallið verður töluvert meir en stjórnvöld hafa gefið upp en þegar er staðfest að rúmlega tíu þúsund manns liggja í valnum.

Kínversk stjórnvöld hafa sent 50.000 hermenn til Sichuan héraðs og eiga þeir að aðstoða björgunarsveitir þar eftir jarðskjálfti sem mældist 7,9 á richter reið yfir svæðið í gærmorgun.

Mannfall af völdum skjálftans liggur ekki fyrir en kínversk stjórnvöld nefna nú töluna að minnsta kosti tíu þúsund manns.

Þetta er stærsti jarðsjálfti í Kína undanfarin 58 ár. Wen Jiabao forsætisráðherra Kína sagði í morgun að mannfallið og eyðileggingin væri meir en talið var í fyrstu og þyrfti því að senda fleira fólk á svæðið til björgunnarstarfa.

Aðstæður til björgunarstarfa eru mjög erfiðar á svæðinu og hafa miklar rigningar og sífelldar aurskriður gert björgunarsveitum erfitt að athafna sig. Meðal þeirra bygginga sem hrundu voru fimm skólar.

Wen Jiabao flaug til Sichuan í gær og hann hefur skipað björgunarsveitum að opna veginn til Wenchuan fyrir miðnættið í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×