Innlent

Þorsteinn skýtur fast á Davíð

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir harðlega framgöngu Davíðs Oddssonar, eftirmanns síns í formannsstóli og núverandi Seðlabankastjóra, í leiðara Fréttablaðsins í dag. Þorsteinn gefur í skyn að Davíð hafi farið út fyrir verksvið sitt þegar hann lýsti skömm og fyrirlitningu á þeim sem mælt hafa með upptöku evru í viðtali á Stöð 2.

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins og fyrrverandi formaður, Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra hefur blandað sér í umræðuna um peningamálastjórnina með afgerandi hætti. Hinn 12. september skrifaði hann leiðara þar sem hann sagði peningamálastefnuna hafa beðið skipbrot og enginn hefði fært haldbær rök fyrir því að halda í krónuna. Sex dögum síðar var Davíð Oddsson í frægu viðtali í Íslandi í dag þar sem hann skaut föstum skotum að öllum þeim sem gerðu ógæfulega og óskiljanlega atlögu að krónunni við núverandi aðstæður.

Jónas Haralz er einn þeirra sem mælt hefur með evrunni og sagt krónuna haldlitla. Þorsteinn Pálsson minnir á stórt hlutverk hans í hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, en hann hefði samið tímamótayfirlýsingu um endurreisn í anda frjálshyggju á sínum tíma.

„Sú yfirlýsing var helsti hugmyndafræðilegi grundvöllur þeirra umbreytinga á efnahagsstjórn sem smám saman urðu að veruleika á níunda og tíunda áratugnum í fjórum mismunandi samsettum ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins. Ósmá áhrif," segir Þorsteinn í leiðara dagsins. Hann rifjar upp greinar eftir Jónas og annan mætan sjálfstæðismann, Einar Beneditksson.

„Í greinum þeirra kom ennfremur fram ósk um að Seðlabankinn gerði ítarlega grein fyrir árangri peningamálastefnunnar sem fylgt hefur verið frá aldamótum," segir Þorsteinn og nú liggi svar formanns bankastjórnar Seðlabankans fyrir einkar skýrt og afdráttarlaust í viðtalinu á Stöð 2.

„Bankastjórarnir, einn fyrir alla og allir fyrir einn, líta einfaldlega svo á að slíkur málflutningur sé „lýðskrum" og á honum hafi menn á þeim bæ bæði „skömm" og „fyrirlitningu". Sannarlega er ekki unnt að kvarta yfir því að svör hafi ekki fengist við hógværri beiðni."

Þorsteinn minnir á að lög mæli fyrir um sjálfstæði Seðlabankans en: „Lögin mæla þó fyrir um að bankastjórnin skuli ekki sinna öðrum viðfangsefnum en þeim sem samræmast hlutverki seðlabanka," segir Þorsteinn og klikkir út með þessum orðum:

„Spurt hefur verið hvort bankastjórnin hafi farið út fyrir verksvið sitt í þessu svari og inn á pólitískan vettvang. Að lögum ber ríkisstjórnin ábyrgð á að slíkt gerist ekki."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×