Innlent

Bæjarstjórn Voga logar í illdeilum

SB skrifar
Inga Sigrún Atladóttir. Vogar í bakgrunni.
Inga Sigrún Atladóttir. Vogar í bakgrunni.

Inga Sigrún Atladóttir, fulltrúi H-listans í bæjarstjórn Voga, sakar forseta bæjarstjórnar um spillingu. Hún segir mágkonu forsetans hafa komið í veg fyrir að byggt yrði félagsheimili fyrir kvenfélag bæjarins þrátt fyrir vilja meirihluta byggingarráðs. Inga Sigrún er sjálf brigsluð um óeðlileg vinnubrögð.

Það kvikna því ekki bara eldar í bílum í Vogum - bæjarstjórnin logar í illdeilum.

"Það var sameiginlegt álit allra í byggingarnefd fyrir utan hennar að búa til nýja lóð fyrir kvenfélagið niðri við höfnina," segir Inga Sigrún. Konan sem Inga Sigrún talar um er Oktavía Ragnarsdóttir, mágkona Birgis Arnar Ólafsson, forseta bæjarstjórnar. Í fundargerð bæjarstjórnar spyr Inga Sigrún hvort það sé tilviljun að meirihlutaálit byggingarnefndar hafi verið hunsað "...eða má ætla að fjölskyldutengsl hafi hér átt hlut að máli?"

Deilan um hús kvenfélagsins er einn af angi af þeim miklu illdeilum sem skekja nú hið litla samfélag í Vogunum. H-listinn, sem samanstendur af Samfylkingunni og óháðum, var við völd í sextán ár en valdatíð H-listans lauk þegar E-listinn vann sigur í síðustu kosningum. Inga Sigrún segir hin ýmsu félög bæjarins bera pólitískan stimpil - til dæmis hafi formaður kvenfélagsins verið bæjarfulltrúi hjá H-listanum.

Inga Sigrún er sjálf ekki óumdeild. Hörður Harðarson, formaður bæjarráðs, hefur gagnrýnt hana harkalega fyrir að sækja ekki síðustu þing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í bókun sagði hann ástæðuna þá að "engin ferðalög hafa verið í boði". Inga Sigrún segir hann þar ýja að því að hún sæki ekki þing nema í því felist ferðalag út á land og því tilheyrandi dagpeningar og hótelgistingar.

Þetta finnst Ingu Sigrúnu ómakleg gagnrýni.

"Hann vildi ekki biðjast afsökunar og forseti ekki ávíta hann," segir Inga. Í bókun á fundi bæjarstjórnar segist hún hafa leitað til lögmanns sem telji ummælin stangast á við hegningarlög. "Ég býst samt ekki við að ég fari með þetta lengra. Ætli það sé ekki komið nóg af illindum."

Deilurnar í Vogum vekja athygli enda sjaldan sem jafn persónulegar árásir birtist í fundargerðum og bókunum bæjarfélaga. Fyrir helgi sagði Gunnar Helgason, formaður skipulags og byggingarnefnd Voga af sér vegna óeðlilegra vinnubragða. Hann byggði ólöglegt hús á lóð sem hann átti ekki. Inga Sigrún segir ekki nógu góðan vinnufrið í bæjarstjórninni.

"Það er lítil samvinna og engin fagmennska," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×