Innlent

Merkingum á hættulegum kafla hugsanlega flýtt

Drjúgur spölur af hættulegasta vegarkafla Suðurlandsvegar, á milli Hveragerðis og Selfoss, er ómerktur og þar vantar auk þess hliðarstikur. Vegfarendur segja stórhættulegt að fara þar um í myrkri og slæmu skyggni.

Allar merkingar hefur vantað síðan vegarkaflinn frá Kögunarhóli og niður undir Selfoss var malbikaður fyrir hálfum mánuði. Ökumenn segja að allt renni út í eitt í myrkri vegna skorts á mið- og hliðarlínum og svo vanti stikur með glitmerkjum í köntunum.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar hefur lögreglan á Selfossi ítrekað kvartað yfir þessu við Vegagerðina án árangurs þar til í morgun að fyrir einhverja tilviljun hafist var handa við umbætur, nokkru eftir að fjallað var um málið í morgunfréttum Bylgjunnar og á Vísi.

Þær upplýsingar fengust hjá Vegagerðinni í morgun að til hafi staðið að merkja veginn þegar búið væri að ganga frá vegöxlum utan malbiksins en merkingum verði hugsanlega flýtt.

Skýrar reglur eru um það í flestum eða öllum vestrænum ríkjum að ekki megi opna þjóðleiðir eftir lagfæringar fyrr en merkingar eru komnar í fullkomið lag en sambærilegar íslenskar reglur munu vera rýmri.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×