Innlent

Hrikalegt verkefni að loka fjárlagagatinu

Sársaukafullar aðgerðir blasa við stjórnvöldum til að loka fjárlagagatinu. Jafnvel þótt helstu skattar yrðu hækkaðir um þriðjung og launakostnaður ríkisstarfsmanna skorinn niður um fjórðung dygði það ekki til.

Að brúa fjárlagagatið verður sennilega erfiðasta verkefnið sem bíður stjórnvalda á næsta ári, - verkefni sem vafalaust mun kalla á gríðarleg átök.

Gefum okkur að stoppa ætti upp í 153 milljarða gatið með hærri tekjuskatti einstaklinga og hækkuðum þannig staðgreiðsluna, sem verður 37 prósent á næsta ári, upp í 40 prósent. Það minnkaði gatið niður í 133 milljarða. Hækkun virðisaukaskatts, bæði hærra og lægra skattþreps, um þrjú prósentustig, kæmi hallanum niður í 113 milljarða. Ef við bættum svo við launalækkun ríkisstarfsmanna um tíu prósent yfir línuna færi hallinn niður í 100 milljarða.

Þessar aðgerðir duga bara til að brúa þriðjung hallans þannig að við prófum enn grimmari aðgerðir; staðgreiðsluprósentan upp í 42, vaskurinn enn hærra upp og lækkum launin um fimmtán prósent. Með öllu þessu kæmum við gatinu niður í 64 milljarða.

Fyrirvara verður að hafa um hvort slíkar aðgerðir skiluðu tilætluðum tekjum, því miklar skattahækkanir og launaskerðing myndu væntanlega draga úr kaupgetu og vinnuáhuga og auka svarta atvinnustarfsemi.

En höldum samt áfram að reyna að loka gatinu og förum með staðgreiðsluna upp í himinhá 45 prósent og vaskinn upp í 33,5 prósent. Þá vantar okkur enn 17 milljarða. Ef við myndum svo loka gatinu með launaskerðingu þyrfti hún að verða 28 prósent.

Það verður auðvitað að teljast fjarstæðukennt að stjórnvöld grípi til þvílíkra aðgerða sem þessara. Þessi dæmi eru hins vegar sett fram til að gefa hugmynd um hversu hrikalegt og sársaukafullt verkefni blasir við.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×