Innlent

Annmarkar á skipun Þorsteins sem héraðsdómara

Umboðsmaður Alþingis telur að annmarkar hafi verið á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð þegar Árni Mathiesen, settur dómsmálaráðherra, skipaði Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands-eystra.

Þorsteinn var skipaður í embættið tuttugasta desember í fyrra. Árni Mathiesen, var skipaður dósmálaráðherra, og falið að skipa í embættið enda hafði Þorsteinn verði aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra í fjögur ár. Sérstök matsnefnd taldi aðra þrjá umsækjendur hæfari. Tveir kvörtuðu til umboðsmanns Alþingis sem sendi frá sér álit í málinu síðdegis.

Hann telur að annmarkar hafi verið á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð hjá settum dómsmálaráðherra.

Í álitinu segir að umboðsmaður telji að ráðherra hafi ekki gætt þeirra reglna um undirbúning og mat á umsóknum sem eiga að tryggja að hæfasti umsækjandinn verði skipaður.

Í álitinu eru að auki gerðar athugasemdir við að efni rökstuðnings ráðherra til annarra umsækjenda fyrir skipun í embættið hefði ekki uppfyllt kröfur stjórnsýslulaga.

Að teknu tilliti til dómaframkvæmdar hér á landi og að teknu tilliti til hagsmuna þess sem hlaut skipun í embættið taldi umboðsmaður að ekki væru líkur á að ofangreindir annmarkar leiddu til ógildingar á skipuninni. Það félli hins vegar utan starfssviðs umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvaða lagalegu afleiðingar þessir annmarkar á meðferð málsins kynnu að öðru leyti hafa í för með sér ef um þetta yrði fjallað af dómstólum t.d. í formi skaðabótamáls.

Umboðsmaður beindi þó þeim tilmælum til skipaðs dómsmálaráðherra að framvegis yrði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem lýst væri í álitinu við undirbúning og veitingu embætta héraðsdómara.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×