Innlent

Alþingi gefið utan undir með bráðabirgðalögum

Formaður þingflokks frjálslyndra segir ríkisstjórnina hafa gefið Alþingi utan undir þegar hún samþykkti bráðabirgðalög um Viðlagatryggingu Íslands vegna Suðurlandsskjálftans. Hann segir að bregðast verði við sívaxandi áráttu einstakra ráðherra til að beita bráðabirgðalagavaldi.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum fyrir helgi, að tillögu viðskiptaráðherra, bráðabirgðalög um breytingu ákvæða laga um Viðlagatryggingu Íslands þar sem kveðið er á um að sjálfsábyrgð vegna náttúruhamfara lækki úr 85 þúsund krónum niður í 20 þúsund krónur.

Var þetta gert vegna ábendinga um að sjálfsábyrgð vegna tjóna á lausafjármunum væri of há miðað við það sem gengur og gerist hjá vátryggingafélögunum.

Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, segir í pistli á heimasíðu sinni að með þessu hafi ríkisstjórnin enn og aftur gefið Alþingi utan undir með síendurtekinni setningu bráðabirgðalaga á meðan ekkert sé því til fyrirstöðu að kalla saman þingið. Kristinn segir að bregðast verði við áráttu einstakra ráðherra til að beita þessu valdi því þannig komist þeir hjá því að leggja mál fyrir þingið og standa fyrir máli sínu þar. Þess í stað verður búið að greiða út bætur samkvæmt hinum nýju skilmálum þegar þing kemur saman í haust og því verði löggjafinn einfaldlega að sætta sig við orðinn hlut.

Kristinn efast jafnframt um framkvæmd laganna. Með þeim hafi ráðherra gefið sér heimild til að hækka sjálfsábyrgðina hvenær sem honum þóknast og því geti hún verið breytileg frá einu tjóni til annars. Í stað þess að breyta tryggingaskilmálunum hefði ráðherra frekar átt að setja ákvæði um sérstakar greiðslur til tjónþola.

Þeir sem þegar hafa sótt sér bætur vegna tjóna í jarðskjálftunum á Suðurlandi geta nú leitað til tryggingafélaganna til að fá leiðréttingu í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem og þeir sem urðu fyrir tjóni sem nemur lægri upphæð en 85 þúsund krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×