Innlent

Skjólbelti við Ylströnd algjörlega til skammar

Steinþór Helgi Arnsteinsson skrifar
Óttarr Hrafnkelsson, forstöðumaður Ylstrandarinnar, við skjólvegginn lágvaxna.
Óttarr Hrafnkelsson, forstöðumaður Ylstrandarinnar, við skjólvegginn lágvaxna. Mynd/Steinþór Helgi
Lítil uppbyggingin hefur verið við Ylströndina í Nauthólsvík frá því að hún opnaði sumarið 2000. Andvaraleysi borgarstjórnar í málefnum svæðisins endurspeglast líklegast best í sérstöku skjólbelti sem gróðursett var fyrir ofan ströndina og heldur hvorki vatni né vindi eins og kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gær. Skjólbeltið teygir sig rétt um fáeina sentímetra upp í loftið og líklegt þykir að það taki gróðurinn um tíu ár að vaxa upp í þá hæð að hann geti veitt eitthvert skjól. Einfalt að bæta aðstöðuna
Hér sést hversu veiklulega skjólbeltið við Ylströndina í Nauthólsvík lítur út. Forstöðurmaur svæðsins vill frekar sjá þykkara gróðurbelti meðfram öllu svæðinu.
Óttarr Hrafnkelsson, forstöðumaður Ylstrandarinnar, er langþreyttur á ástandinu og segir núverandi lausn óviðunandi. Ekki eingöngu sé langt að bíða þar til skjólgróðurveggurinn taki á sig nytsamlega mynd heldur verða áhrif hans væntanlega ekki teljandi þó hann gæti reynst ágætis prýði. „Ég hefði viljað sjá meðfram allri ströndinni ekki eina röð, heldur þrjár raðir af trjám. Við erum ekkert að tala um neinn brjálæðislega mikinn gróður eða vesen. Þetta er hrikalega einföld aðgerð og það er stofnun hjá borginni sem sérhæfir sig í gróðri. Pólitíkusarnir þurfa einfaldlega að veita fé í þetta þannig hægt verði að halda áfram uppbyggingu á svæðinu," útskýrir Óttarr. Frekari uppbygging verður að eiga sér stað
Rétt við Ylströndina má sjá þennan trjágróður sem ber ekki mikið yfir sér en veitir hins vegar talsvert skjól. Eitthvað þessu líkt væri hægt að koma upp við Ylströndina.
Óttarr segir að menn hafi hlaupið frá hálfkláruðu verki þegar Ylströndin var opnuð og að ekkert hafi verið gert síðan þá. „Peningurinn fór svolítið mikið í þjónustubygginguna sem er frekar fáránlegt; að eyða fyrst peningum í þjónustubyggingu fyrir útvistarsvæði í stað þess að byggja fyrst upp útivistarsvæðið og síðan þjónustubygginguna."

Að mati Óttars verður fyrst og fremst að líta á Nauthólsvíkursvæðið sem útivistarsvæði en ekki eingöngu sólarströnd. „Við erum með fullan mannskap og opið hér á ströndinni í hundrað daga á hverju sumri og svo fáum við kannski bara fimm til tíu daga þar sem er Benidorm-veður.Við viljum því leggja áherslu á að að þú getir komið hingað þó það sé ekki sól og 25 stiga hiti. Þess vegna finnst okkur vanta leiktæki og að gera svæðið meira aðlaðandi og notendavænna. Það vantar að klára hugmyndina á bakvið Ylströndina."

Tengdar fréttir

Baðstrandargestir leita skjóls undir rofabörðum

Enn er áratugur hið minnsta þar til skjól skapast við eina baðstrandarsvæði Reykvíkinga - Ylströndina í Nauthólsvík. Umsjónarmaður svæðisins segir dapurt að borgaryfirvöld hafi ekki hugsað fyrir skjólmyndun. Barátta hans fyrir skjóli hefur skilað gróðurbelti sem nú teygir sig fáeina sentímetra í loft upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×