Erlent

Elton John hefur haldið tónleika í öllum fylkjum Bandaríkjanna

Elton John
Elton John

Elton John hélt sína fyrstu tónleika í Bandaríkjunum árið 1970 og hefur komið þangað reglulega síðan. En það tók hann nær fjóra áratugi að halda tónleika í öllum 50 ríkjunum. Markinu var náð í vikunni þegar hann spilaði í Vermont á austurströndinni.

Hann hefur lagt á það áherslu á síðustu árum að spila á stöðum sem eru utan alfaraleiðar stórstjarnanna, og segir að áheyrendur þar séu yfirleitt þakklátari en á stöðum þar sem stórtónleikar eru haldnir reglulega.

Og hvar sem Elton kemur notar hann tækifærið til að minna á sitt hjartans mál - sem er baráttan gegn alnæmi. Hann hefur áhyggjur af því að ungt fólk sé kærulaust þegar kemur að ábyrgu kynlífi. Það fái sér í glas eða taki fíkniefni og þá fjúki öll aðgæsla út um gluggann.

Á undanförnum árum og áratugum hefur Elton John varið miklum fjárhæðum til baráttunnar gegn alnæmi, mest í gegnum sjóð sem hann setti á laggirnar og ber nafn hans. Allur ágóði af tónleikunum í Vermont rann í þennan sjóð - og það sama má segja um sölu af rjómaís sem íssölufyrirtækið Ben & Jerry's setti á markað þá vikuna og heitir eftir einni bestu plötu meistarans, Goodbye Yellow Brick Road.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×