Innlent

„Þetta horfði þunglega í alla nótt“

Loftur Jóhannsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra.
Loftur Jóhannsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

„Þetta horfði þunglega í alla nótt alveg fram undir morgun," sagði Loftur Jóhannsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, sem í morgun náði samkomulagi í kjaradeilu sinni við samninganefnd Samtaka atvinnulífsins. Samtökin semja fyrir hönd Flugstoða ohf.

Í kjölfarið var vinnustöðvun flugumferðarstjóra, sem hófst klukkan sjö í morgun, aflýst og sömuleiðis hinum 19 sem boðaðar höfðu verið næsta mánuðinn.

Samið var um 4,75 prósenta hækkun á töxtum við undirritun samninga og þriggja prósenta hækkun aftur í febrúar á næsta ári. Þá var samið um sérstakt kennsluálag fyrir þá sem eru með nýja flugumferðarstjóra í þjálfun. Ekkert var hins vegar fjallað um yfirvinnu í samningnum að sögn Lofts. Samningurinn gildir til loka október á næsta ári.

„Það er langt frá því að við höfum náð okkar markmiðum en við sættum okkur við þennan samning í bili," sagði Loftur við fréttamenn eftir að samningar höfðu náðst hjá ríkissáttasemjara eftir nærri sólarhringsfund.

Flugstoðir fagna nýgerðum samningi sem og starfsemi Flugstoða fer nú í eðlilegt horf. Á heimasíðu Flugstoða segir að íslenskir og erlendir ferðamenn geti nú ferðast um og yfir Íslandi án þess að hafa áhyggjur af því að komast ekki leiðar sinnar.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×