Innlent

Sýknaður af hnífstungu við Hellisheiðarvirkjun

MYND/Vilhelm

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í dag pólskan karlmann af ákæru um líkamsárás. Honum var gefið að sök að hafa lagt til samlanda síns með eggvopni þanning að hann fékk skurð á kálfa. Atvikið átti sér stað í vinnubúðum við Hellisheiðarvirkjun í nóvember í fyrra.

Málið vakti nokkra athygli á síðasta ári en nokkur fjöldi verkamanna var ölvaður á staðnum þar sem árásin átti sér stað. Hinn ákærði gaf sig fram við lögreglu daginn eftir árásina þegar hann frétti að hún leitaði hans og sat hann í varðhaldi um tíma vegna málsins. Við leit á heimili hans í Reykjavík fundust hnífar sem lagt var hald á en við rannsókn á þeim fundust engar blóðleifar. Lagt var hald á fatnað mannsins og ekkert athugavert fannst á honum.

Maðurinn neitaði sök í málinu en viðurkenndi að til átaka hefði komið á milli hans og fórnarlambsins í reykherbergi vinnubúðanna. Þau átök hefðu borist út gang og þar hefði verið mikill fjöldi manna.

Héraðsdómur benti á engin vitni væru að því að hinn ákærði hefði lagt til fórnarlambsins og þá hefði ekkert fundist á fatnaði hans. „Flestir viðstaddra virðast hafa verið undir áhrifum áfengis og þegar litið er til fjölda þeirra er á vettvangi voru og þrengslna á ganginum er ekki loku fyrir það skotið að einhver annar en ákærði hafi veitt kæranda umrædda áverka. Verður því ekki hjá því komist að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins í máli þess,“ segir Héraðsdómur Suðurlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×