Innlent

Tvöfalt fleiri kaupsamningum þinglýst

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir á höfuðborgarsvæðinu tvöfaldaðist á milli vikna. Í vikunni 20.-26. júní voru samningarnir 62 en í seinustu viku nam fjöldi þeirra 33.

Auk þess var heildarveltan breytileg og munaði rúmlega 1,3 milljörðum á milli vikna. Heildarveltan í liðinni viku var 2,3 milljarðar en tæpur milljarður í síðustu viku. Meðalupphæð á samning hækkaði einnig. Hún var 37 milljónir króna dagana 20. til 26. júní en tæpar 30 milljónir í síðustu viku.

Þess má geta að ríkisstjórnin tilkynnti um aðgerðir vegna erfiðrar stöðu á fasteigna- og fjármálamarkaði 19. júní. Meðal þeirra aðgerða sem gripið var til var að hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs úr 18 milljónum króna í 20 milljónir og hætta að miða við brunabótamat íbúðar við lánveitingar sjóðsins og miða þess í stað við 80 prósent af uppsettu verði.

Á sama tíma í fyrra nam fjöldi þinglýstra kaupsamninga 249 og var heildarveltan 7,3 milljarðar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×