Innlent

Matsmenn kallaðir til í Mýrarhúsaskólamáli

Matsmenn verða kallaðir fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag vegna skaðabótamáls kennara á hendur móður stúlku sem skellti hurð á kennarann. Dómur hefur þegar fallið í málinu í héraðsdómi en matsgerð sérstakra matsmanna á að leggja fyrir Hæstarétt þegar hann tekur málið fyrir.

Atvik málsins voru með þeim hætti að stúlkan hafði falið sig fyrir samnemendum sínum inni í vinnurými kennara í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi til að forðast einelti. Þegar kennarinn fór að svipast um eftir stúlkunni renndi stúlkan hurð á höfuð kennarans með þeim afleiðingum að 25 prósenta varanleg örorka hlaust af.

Kennarinn stefndi móðurinni fyrir hönd ólögráða dóttur hennar og Seltjarnarnesbæ, sem rekur Mýrarhúsaskóla. Héraðsdómur sýknaði Seltjarnarnesbæ í málinu en dæmdi móðurina til greiðslu 10 milljóna króna skaðabóta.

Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og að sögn Guðmundar Péturssonar, lögmanns móðurinnar, koma matsmenn fyrir héraðsdóm að kröfu móðurinnar. Þeim verði ætlað að vinna matsgerð vegna málsins. Þá matsgerð á að leggja fyrir Hæstarétt þegar málið verður tekið fyrir þar en ekki liggur fyrir hvenær það verður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×