Innlent

Framtíð Alþjóðahvalveiðiráðsins sett í nefnd

Ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem lauk í dag, ákvað að stofna vinnuhóp sem ætlað er að vinna að lausn ágreiningsmála sem hamlað hafa starfi ráðsins undanfarin ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Tilgangurinn með starfi vinnuhópsins er að gera Alþjóðahvalveiðiráðinu kleift að uppfylla hlutverk sitt varðandi vernd hvalastofna og stjórn hvalveiða.

Ákvörðunin felur í sér að fram að næsta ársfundi verður áhersla lögð á að finna lausnir á ágreiningsmálum innan ráðsins. Djúpstæður ágreiningur hefur verið um grundvallaratriði svo sem um hvort sjálfbærar hvalveiðar séu réttlætanlegar. Ljóst er að hópsins bíður erfitt verkefni.

Ísland studdi tillöguna og mun taka þátt í starfi vinnuhópsins.

Önnur mál voru til umfjöllunar á ársfundinum. ,,Í því sambandi má nefna ítrekun á fordæmingu ráðsins á aðgerðum mótmælenda sem trufluðu löglegar hvalveiðar Japana með hættulegu atferli. Aðildarríki ráðsins voru hvött til aðgerða í þessu sambandi. Í umræðum um þetta mál lagði Ísland áherslu á aðgerðir ríkja sem koma beint að málinu sem fánaríki, hafnríki eða ríki þar sem samtök sem stundi þessa iðju eru með skráða starfsemi," segir í tilkynningu ráðuneytisins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×