Innlent

Skuggahverfi dæmt til að greiða Þorvaldi og frú um fjórar milljónir

Þorvaldur Gylfason fékk bætur í héraðsdómi.
Þorvaldur Gylfason fékk bætur í héraðsdómi.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag 101 Skuggahverfi til þess að greiða Þorvaldi Gylfasyni háskólaprófessor og konu hans, Önnu Karítas Bjarnadóttur, 4,1 milljón króna í bætur vegna galla á íbúð sem þau keyptu í Skuggahverfinu árið 2005.

Hjónin kröfðu félagið um samtals 12,4 milljónir króna vegna skemmda á parketi og rúðugleri og vegna gallaðrar hljóðeinangrunar og málningarvinnu við íbúð þeirra að Lindargötu. Matsmenn höfðu metið kostnaðinn við að lagfæra íbúð þeirra á um 12 milljónir.

Héraðsdómur komst að því að 101 Skuggahverfi bæri ekki ábyrgð á því að parket hefði skemmst og hafnaði því rúmlega sjö milljóna króna kröfu þar um. Hins vegar bar fyrirtækinu að greiða Þorvaldi og frú um 3,5 milljónir vegna galla á rúðum, 600 þúsund til þess að bæta hljóðvist í íbúðinni og rúmlega 20 þúsund vegna málningarvinnu.

Héraðsdómur hafnaði kröfu hjónanna um að 101 Skuggahverfi yrði gert að greiða matskostnað, nærri þrjár milljónar, en hins vegar ber fyrirtækinu að greiða eina milljón í málskostnað til þeirra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×