Innlent

Orkuráð úthlutar 172 milljón kr. til jarðhitaleitar

Orkuráð hefur á fundi sínum í dag á Hótel Klaustri á Kirkjubæjarklaustri úthlutað samtals 172 milljónum til jarðhitaleitar á 29 stöðum þar sem ekki njóta hitaveitu.

Í tilkynningu um málið segir að miðað við kostnaðaráætlanir umsækjenda verður á næstunni starfað við jarðhitaleit fyrir nær 300 milljónir kr.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra var viðstaddur afgreiðslu ráðsins og sagði við það tækifæri að þetta væri hin íslenska leið til þess að vinna sig út úr vanda sem meðal annars steðjar að vegna þorskaflabrests og hækkandi orkuverðs. Fjárfesting í innviðum og nýjum orkugjöfum búi í haginn fyrir framtíðina.

Úthlutun orkuráðs er að mestu liður í mótvægisaðgerðum stjórnvalda vegna þorskaflaskerðingar. Átakinu er einnig ætlað að stuðla að lækkun húshitunarkostnaðar sem nýtist bæði íbúum staðanna og skattgreiðendum vegna minni niðurgreiðslna, og ennfremur verður jarðhitaleitin væntanlega til þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og nýta betur raforku.

Af fénu sem nú er úthlutað, 172 milljónum króna, eru 152 milljónir kr. veittar sem hluti sérstaks átaks vegna mótvægisaðgerða sem alþingi samþykkti á haustþinginu 2007, en 20 milljónum kr. er úthlutað sem almennu jarðhitaleitarátaki árið 2008 samkvæmt heimild í lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×