Innlent

Íslandsmet í farbanni

SB skrifar
Sveinn Andri Sveinsson undrast seinagang lögreglu í rannsókn á máli umbjóðanda síns.
Sveinn Andri Sveinsson undrast seinagang lögreglu í rannsókn á máli umbjóðanda síns.

"Þetta er náttúrlega engin hemja," segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Viggós Þórs Þórssonar - fyrrverandi framkvæmdastjóra Verbréfastofu Sparisjóðanna. Viggó var sagt upp störfum eftir að upp komst um fjármálamisferli í starfi.

Hæstiréttur staðfesti í dag áttunda farbannsúrskurðinn í röð yfir Viggó sem hefur nú verið í farbanni í fimmtán mánuði. Í úrskurði Héraðsdóms er því haldið fram að hætta sé á að hann fari af landi brott þar sem móðir hans búi í Arizona.

"Hann er búinn að vera í farbanni í fimmtán mánuði sem ég held að hljóti að teljast íslandsmet á þessu sviði," segir Sveinn Andri. Hann segir að farbann sé eitt form frelsisskerðingar og það sé ótækt að hann sé beittur því meðan rannsóknin tefjist úr hófi fram.

"Það hefur ekkert gerst mánuðum saman og hann er látinn gjalda fyrir það. Hæstiréttur hefur tvívegis klofnað í afstöðu sinni til farbannsins og Jón Steinar Gunnlaugsson viljað hafna því."

Viggó á konu og barn hér á Íslandi en má ekki fara í frí með fjölskyldu sinni erlendis vegna farbannsins. Í úrskurði Hæstaréttar fram að hann hafi gert sig sakan um skjalafals og auðgunarbrot.

"Mál þetta varðar afar mikla fjármuni og rannsókn þess er tímafrek einkum þar sem leita þarf réttaraðstoðar erlendis frá," segir í úrskurðinum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×