Innlent

Kominn aftur í gæsluvarðhald

Jóhanna Sigþórsdóttir skrifar
Hæstiréttur sneri við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.
Hæstiréttur sneri við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.
Hæstiréttur úrskurðaði síðdegis í gær að athafnamaðurinn Þorsteinn Kragh skyldi fara aftur í gæsluvarðhald. Þar með sneri Hæstiréttur við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði hafnað kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þess efnis. Héraðsdómur hafði þess í stað úrskurðað Þorstein í farbann til 9. október.

Þorsteinn var handtekinn í byrjun júlí og úrskurðaður í gæsluvarðhald í framhaldi af því. Gæsluvarðhaldið rann út á miðvikudag og var honum sleppt.

Eins og fyrr segir gerði Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kröfu um áframhaldandi gæslu, en héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu. Lögreglustjóri kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem sneri honum við í gær.

Þorsteinn var í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild hans að einu stærsta fíkniefnamáli sem upp hefur komið hérlendis, þegar aldraður Hollendingur reyndi að smygla inn um 190 kílóum af hassi, einu og hálfu kílói af marijúana og einu kílói af kókaíni. Efnin hafði maðurinn falið vandlega í húsbíl sem kom með ferjunni Norrænu til landsins 10. júní. Hollendingurinn situr enn í gæsluvarðhaldi.

Samkvæmt úrskurði Hæstaréttar skal Þorsteinn sæta gæsluvarðhaldi í sex vikur. Hann gaf sig fram við lögreglu í gærkvöld og var settur í varðhald. Þorsteinn hefur staðfastlega neitað sök í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×