Innlent

Meirihluti hlynntur því að taka upp evru

MYND/AP

Rúmlega 55 prósent aðspurðra eru hlynnt því að taka upp evru hér á landi í stað krónunnar samkvæmt nýrri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins.

Þrjátíu prósent aðspurðra eru á móti en 14 prósent eru óákveðin. Þegar horft er eitt ár aftur í tímann kemur í ljós að fylgjendum evrunnar hefur fjölgað eilítið en þeir voru tæp 53 prósent í ágúst í fyrra. Að sama skapi hefur þeim fækkað sem eru andvígir því að taka upp evru.

Þegar afstaða er skoðuð eftir kynjum kemur í ljós að karlar eru hlynntari upptöku gjaldmiðilsins en konur. Tæp 63 prósent karla vilja evruna í stað krónunnar en 48 prósent kvenna eru á sömu skoðun.

Í tilkynningu Samtaka iðnaðarins er einnig vakin athygli á því að fylgni sé á milli menntunar og afstöðu til evru. Þannig eru færri grunnskólaprófsmenntaðra fylgjandi upptöku evru, eða 49 prósent á móti 59 prósentum háskólamenntaðra. Meirihluti þeirra sem eru með yfir 800 þúsund krónur í laun á mánuði eru fylgjandi evru, eða 63 prósent og 24 prósent eru á móti. Þá er helmingur þeirra sem hafa undir 250 þúsund krónum í mánaðarlaun fylgjandi gjaldmiðlinum en 40 prósent á móti.

Meiri stuðningur við evru á höfðuborgarsvæði en landsbyggð

„Séu niðurstöður skoðaðar eftir búsetu eru íbúar höfuðborgarsvæðisins jákvæðari gagnvart evru en íbúar landsbyggðarinnar. Um 61% höfuðborgarbúa er fylgjandi til móts við rúm 48% íbúa landsbyggðarinnar. Ekki er afgerandi munur eftir aldri fólks. Flesta fylgjendur evru er þó að finna í aldursflokknum 45-54 ára eða 60%," segir einnig í tilkynningu Samtaka iðnaðarins.

Þegar horft er til stuðningsmanna stjórnmálaflokkanna kemur í ljós að 78 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar eru hlynntir því að taka upp evru en 13 prósent andvíg. Helmingur stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins vill evru en þriðjungur ekki. Þeir eru fleiri í öllum flokkum sem eru hlynntir upptöku evru en þeir sem eru andvígir. 49 prósent kjósenda Vinstri - grænna vilja evrópumyntina og 45 prósent framsóknarmanna en frjálslyndra er ekki getið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×